10.9.2009 | 10:05
Helgi Hó
Mikil og móðursýkisleg umræða fer nú fram eftir andlát Helga Hóseasonar.
Hann var ein af þessum skrítnu skrúfum sem vissulega krydda mannlífið í lifanda lífi en þá finnst öllum bragðið vont og biðja ógjarnan um meira.
Þegar hann her horfinn af horninu sínu á Langholtsveginum þá grípur um sig sektarkennd gagnvart manninum og mér sem leikmanni sem hef bara fylgst með úr fjarska finnst mjög óviðeigandi.
Nú tala ég sannarlega einsog fulltrúi góðborgaranna sem aldrei gátu séð athafnir Helga í sérstaklega jákvæðu ljósi. Ég tel reyndar að það megi segja ýmislegt um hans mótmælaáráttu án þess að hæla henni eða lasta.
Hlutlægt mat mitt á Helga er að hann hafði mjög takmarkaða sýn á mannlífið og einstakta þörf fyrir athygli kirkjunnar sem fulltrúa Krosslafs. Það má segja að með tímanum hafi hann þó gert sér grein fyrir að kirkjan er ríkisrekin og barátta við byskupa frekar en aðrar stofnanir jafngildar og því fóru aðgerðir hans að beinast gegn ríkjandi stjórnmálamönnum.
Hann byrjaði aðgerðir sínar í borginni sem einskonar "Stalker" sem er hugtak yfir amerískt fyrirbrigði þráhyggju gagnvart frægu eða fögru fólki. Ástar-hatursamband hans við Krosslaf tel ég að hafi gert kirkjunnar menn óttaslegna gagnvart honum í alvöru og þau raunverulega viljað koma máli hans formlega af sér. En það var svolítið snúið. Kröfugerð stalkera er venjulega óaðgengileg vegna ýmissa formgalla.
Slíkir hafa líka reynst hættulegir lífi aðdáenda sinna svo sem John Lennon mátti reyna. Lögreglan var því sett í málið en með tímanum var hættunni aflýst og talið ósennilegt að hann færi með skarpari skot en skyr og tjöru. Helgi sat við sitt Heydalagarðsgorn og mótmælti Dabba og Dóra og meira að segja ég get verið sammála því að þeir séu vafasamir pappírar þó ég myndi ekki slást í mótmæli undir merkjum Helga Hó. Það gerði heldur ekki nokkur annar sem ég hef séð eða hitt. En það má vænta þess að mennkomi fram með játingar sínar núna þegar hann er allur og ekki þarf að standa við hlið hans í raun. Hann var bara þarna stundum með spöldin sín gamall maður en sperrtur innan um hina mótmælendurna á Austurvelli. Alveg jafn einn og áður, greinilega ekki maður fjöldans. En það amaðist enginn við honum og einhverjir leyfðu sér að tala vinsamlega til hans og sýna honum kurteisilega athygli. Að ætla sér að skifta sér að kallinum var náttúrulega ekki á nokkurs færi, það hefði ekki endað í góðum fíling. En hafa hann þarna skaðaði heldur ekki málstaðinn. Það hefði verði verra að fá Daví Oddson með sér í mótmælastöðu einsog hefur komið í ljós.
Svo fara menn fram á að reist verði stytta til þessum bísarra sveitamanni sem kom þeim spánskt fyrir sjónir í borgarlífinu alla tíð og vilja að 'hið opinbera' einsog Reykjavíkurborg fjármagni slíkt. Það er ekki í anda lífs Helga að yfirvöld hverskonar fari að reisa honum minnisvarða. Það bara myndi eyðileggja allt.
Eftir stendur að nú geta menn og konur tekið upp skiltin hans Helga Hó og staðið á sínum götuhornum og mótmælt. Það væri sannarlega reisn yfir slíku.
Auðvitað munu trúleysingjafélögin berjast um að gera hann að 'Krosslafi' í sínum söfnuðum og kafa djúpt í líf og kenningar 'spámannsins' á götuhorninu.
Ekki þori ég að blessa minningu Helga Hó af virðingu fyrir skoðunum hans á almætti okkar smáborgaranna. En kallinn er farinn af horninu og það yrði útlátalítið fyrir borgina að leyfa aðdáendum Helga að standa þar eða setja upp skilti með gömlu áletrunum sem eru orðnar bókmenntir í hugum margra. En það yrðu menn að kosta sjálfir og standa fyrir viðhaldi og virðingu fyrir því minnismerki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.