Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.8.2008 | 22:34
verðtrygging er það hugtak til nema á Íslandi ?
í dag varð ég komast á bloggið til að gera athugasemd við færslur annara um afnám verðtryggingar sem Gísli frændi minn bryddaði uppá. Nú er ég orðinn svo gamall að ég er eldri en verðtryggingin og hef alist upp með henni, upplifað og séð bæði úr nálægð lántakandans og fjarlægð þess sem hefur kynnst öðru fjármálaumhverfi. Ályktun mín er að þessu fyrirbæri beri að hafna og henda á safnhaug sögunnar sem fyrst. Fyrir þá sem enn eru í vafa býð ég upp á æfingu: útskýrðu "verðtryggingu" íslenska lánakerfisins fyrir venjulegum meginlandsborgara.
Bara hugtakið er illa smíðað og er ábyggilega ekki kennt sem slíkt í háskólum íslands. Vísitölubinding kemst næst því að vera skiljanlegt og er víst notað í þjóðhagfræði til að reyna að bera saman kaup og kjör mismunandi tímabila í sögunni. Á Íslandi nota menn þetta fræðilega viðmið skapandi til að breyta forsendum lánskjara lánveitanda í hag. Í því felst tryggingingin svokallaða. "Tryggingafélagið" er síðan lántakendur en þeir borga ekki bara út tjónið heldur líka iðgjaldið. Þeir sem eiga fé sitt tengt vísitölu eiga enga sérstaka samleið með lántakendum og geta kynt undir verðbólgu eða fellt gengi einsog þeim sýnist enda fá þeir alltaf sitt fé "bætt". Í vor heyrði maður talað um að ekki mætti hafa tvo gjaldmiðla í launum landsmanna. Þá myndi skapast Evru yfirstétt og krónu undirsátar. Verðtryggingin gerir í raun þetta og þykir bara fínt.
Það er athyglisvert að íslensku útrásar-fjármálasnillingarnir "okkar" hafa aldrei reynt svo vitað sé að selja öðrum þjóðum sem þeir hafa lagt undir iljar sér "verðtryggingu". Kannski hafa þeir gert æfinguna sem ég stakk upp á hér að ofan og séð að þetta er engin alþjóðleg söluvara þó hægt hafi verið að pranga henni yfir á íslenskan almúga sem átti enga möguleika aðra en semja uppá þessa afarkosti. Nú fer ég ekki fram á að við hættum þessari sér-íslensku leið af því að hún er í raun vond hugmynd. Heldur af því að hún er algerlega ótæk og ólíðandi fyrir þá sem vilja opnara og frjálsara efnahagsumhverfi. Lífeyrirsjóðirnir eru einfaldlega dragbíturinn á að verðtryggingar ákvæðin verði afnumin. Peningarnir bara rúlla inn og það er ekkert fyrir þessu haft. Það þarf ekki að kunna neitt til að fá fína ávöxtun á meðan laun rýrna og eignarhluti þinn í veðinu rýrnar. Tja nema þú seljir í uppsveiflu á fasteignamarkaði. En allir geta grætt á svoleiðis ef heppnin er með. Lífeyrissjóðir verða að taka sömu áhættu og aðrir á peningamarkaðinum. Það mun bara styrkja þá til lengdar. Nóg er af góðu fólki til að vinna í þeim geira núna.
Á meðan íslenska fjármálakerfið grefur sig niður í eigið sérviskulega neðanjarðarhagkerfi og notar það sem réttlætingu á því að almenningur fái ekki aðgang að frjálsu streymi fjármagns og lánakjörum í heiminum ætla ég að láta í mér heyra.